Fréttir

Þjóðhetjan og þjóðríkið – Jón Sigurðsson 200 ára

04.05 2011

 
Haldið verður málþing um þjóðhetjuna og þjóðríkið í tilefni 200 ára afmælis Jóns Sigurðssonar á vegum Háskóla Íslands, Sagnfræðistofnunar og Afmælisnefndar Jóns Sigurðssonar  27. maí 2011.  Málþingið fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands frá  kl. 13:00 til 17:00 og er liður í 100 ára afmælisdagskrá  HÍ.  Þar velta íslenskir fræðimenn á sviði sagnfræði, lögfræði og bókmennta fyrir sér spurningum um hvernig þjóðhetja Jón Sigurðsson var, hvaða hlutverki þjóðhetjur gegna og hvort þjóðir þurfi á hetjum að halda.

Á málþinginu mun einnig Geoff Eley, prófessor í sagnfræði við University of Michigan og einn helsti sérfræðingur í sögu Þýskalands á 19. öld  og 20. öld, halda minningarfyrirlestur Sagnfræðistofnunar um Jón Sigurðsson. Þar fjallar hann um áhrif heimsstyrjaldarinnar fyrri á endurmótun þjóðar- hugmynda, kyngervis og borgararéttinda karla og kvenna í Þýskalandi á 3. áratugnum. Ætlunin er að sýna fram á hvernig aukin róttækni á hægri væng stjórnmálanna í kjölfar stríðsins og þýsku byltingarinnar 1918–1919 leiddi til endurskilgreiningar á því hverjir töldust til „alþýðunnar“/ þjóðarinnar og hvernig hugmyndir, sem byggðar voru á mismunum og útilokun, ruddu brautina fyrir „þjóðarsamfélag“ og kynþáttahyggju nasista.

Dagskrá
13:00–13:10   Setning Ásta R. Jóhannesdóttir, forseti Alþingis

Fundarstjórn Anna Agnarsdóttir, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands

13:10–13:40 ,,Var Jón Sigurðsson sjálfstæðishetja?“  Guðmundur Hálfdanarson, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands

13:40–14:10  ,,Kvenhetja eða þjóðhetja?“ Erla Hulda Halldórsdóttir, sagnfræðingur og doktorsnemi við Háskóla Íslands

14:10–14:40  ,,Hver fær að blása á kertin? Í tilefni af 200 ára afmæli H. C. Andersen.“ Jón Karl Helgason, dósent í íslensku við Háskóla Íslands

14:40–15:10   ,,Þjóðréttarfræðingurinn Jón Sigurðsson“. Björg Thorarensen, prófessor í lögfræði við Háskóla Íslands

15:10–15:40  ,,Faðir, frelsari, forseti. Jón Sigurðsson sem sameiningartákn 1879–2011“. Páll Björnsson, sagnfræðingur og dósent í nútímafræði við Háskólann á Akureyri
 
15:40 –16:00   Kaffihlé

16:00 – 16:30  Minningarfyrirlestur Jóns Sigurðssonar: ,,Sködduð og frelsandi karlmennska: Stríð, hetjutilburðir og baráttan um þjóðina.  Þýskaland á fyrri hluta 20. aldar, 1900–1930 [Damaged and Redemptive Masculinity: War, National Heroics, and the Fight  over the People. Germany in the early Twentieth Century, 1900–1930“]. Geoff Eley, prófessor í sagnfræði við University of Michigan.

Fundarstjórn Valur Ingimundarson, prófessor í sagnfræði og forstöðumaður Sagnfræðistofnunar Háskóla Íslands

Minningarfyrirlestur Jóns Sigurðssonar  2011
„Sködduð og frelsandi karlmennska:  Stríð, hetjutilburðir og baráttan um þjóðina. Þýskaland á fyrri hluta 20. aldar, 1900–1930“ 

Geoff Eley, prófessor í samtímasögu við Michigan-háskóla, mun halda minningarfyrirlestur Jóns Sigurðssonar á vegum Sagnfræðistofnunar Háskóla Íslands 27. maí 2011 kl. 16:00 í Hátíðasal HÍ. Fyrirlesturinn ber heitið „Sködduð og frelsandi karlmennska:  Stríð, hetjutilburðir og baráttan um þjóðina.  Þýskaland á fyrri hluta 20. aldar, 1900–1930“ [Damaged and Redemptive Masculinity: War, National Heroics, and the Fight over the People. Germany in the early Twentieth Century, 1900-1930]. Minnningarfyrirlestur Jóns Sigurðssonar er öllum opinn.

Geoff Eley er einn þekktasti sagnfræðingur samtímans á sviði 19. og 20. aldar sögu Þýskalands.  Hann lauk doktorsprófi frá Sussex-háskóla árið 1974 og hefur kennt við Michigan-háskóla frá árinu 1979. Hann gegnir nú sérstakri stöðu háskólaprófessors, sem kennd er við Karl Pohrt, við þá stofnun.  Eley varð snemma kunnur fyrir rannsóknir sínar á Þýska keisaradæminu og túlkun sinni á nútímavæðingu, þjóðernishyggju og róttækum hreyfingum á hægri væng stjórnmálanna. Þær leiddu til  gagngerrar endurskoðunar á hinni svokölluðu „sérleiðarkenningu“ (Sonderweg thesis) um að nútímavæðing Þýskalands hafi verið öðru vísi en Frakklands, Bretlands og Bandaríkjanna, en hún hafði einnig verið notuð til að útskýra uppgang nasisma í Þýskalandi.  Eley er enn fremur þekktur fyrir ritverk sín um kennileg efni og sagnaritun á sviði stjórnmála-, menningar- og félagssögu sem og sögu vinstri hreyfingar í Evrópu á 19. og 20. öld. Meðal rita hans má nefna After the Nazi Racial State: Difference and Democracy in Germany and Europe [ásamt Rita Chin, Heidi Fehrenbach og Atina Grossmann] (2009); The Future of Class in History: What is Left of the Social [ásamt Keith Nield]  (2007); A Crooked Line: From Cultural History to the History of Society (2005); Forging Democracy: The History of the Left in Europe, 1850–2000; The Peculiarities of German History [ásamt David Blackbourn] (1984); Reshaping the German Right: Radical Nationalism and Political Change after Bismarck (1980; önnur útg. 1991); From Unification to Nazism: Reinterpreting the German Past (1986).

Lýsing á fyrirlestrinum:  
Fyrirlesturinn er hluti af stærra rannsóknarefni á afleiðingum fyrri heimstyrjaldarinnar og hvernig kynjahugmyndir endurmótuðu orðræðu um þjóðir og ríkisborgararétt. Markmiðið er að sýna hvernig reynslan af allsherjarstríði gjörbreytti öllum markmiðum í stjórnmálum. Annars vegar hafði hið gríðarlega mannfall og limlestingarnar á vígvellinum bein áhrif á stóran hóp fólks vegna tengsla við þá föllnu, vini þeirra og vandamenn svo ekki sé minnst á bardagareynslu þeirra sem lifðu af.  Áhrif þessa missis urðu langvinn og tóku á sig daglegar birtingarmyndir taugaáfalls (shell-shock), geðraskana, sára og bæklunar.  Á heimavígstöðvunum hafði samfélagið verið virkjað í þágu stríðsins með þeim afleiðingum að öll félagsleg tengsl og samskipti röskuðust. Þessi reynsla, mögnuð með óvæginni almennri kröfu um þjóðrækni, fórnfýsi og þegnskyldu, hafði úrslitaáhrif á það hvernig ríkisborgararéttur karla og kvenna var skilgreindur.  Hins vegar gjörbreytti hervæðing samfélagsins pólitískum skilningi á hinu „alþýðlega“ sem tengdist aukinni róttækni í lýðræðisbyltingunum 1918–1919.  Hvernig átti að koma fram við „alþýðuna“ eða „fólkið“ í stjórnmálum? Hvernig var hugtakið afmarkað? Yfir hverja náði það og hverja útilokaði það? Í hvaða skilningi mátti líta svo á að alþýðan væri fullvalda? Hvernig gat hún fengið umboð og vald?  Hvernig breyttist orðræðan um „þýska alþýðu“ í „þýska þjóð“ og „þýskan kynstofn“. Hverjir heyrðu til „þýsks þjóðarsamfélags“ (Volksgemeinschaft). Með því að glíma við þessar spurningar er markmiðið að skilja betur eðli þeirrar róttækni sem varð á hægri væng stjórnmálanna sem og aðdráttarafl nasista í Þýskalandi. 

Til baka í fréttir Brjóstmynd af Jóni Sigurðssyni eftir B. Bergslien