Stjórnmálaþátttaka

Fyrstu sporin

Þegar Jón Sigurðsson hafði dvalist nokkur ár í Kaupmannahöfn fór hann að hafa æ sterkari skoðanir á stjórnmálasamskiptum Íslendinga og Dana, sérstaklega í verslunarmálum. Þetta kemur skýrt fram í bréfum hans til vina sinna á árunum 1839–1840. Ekki leið á löngu þar til hann fór að beita sér á opinberum vettvangi í þessum efnum. Í júní 1840 blandaði hann sér í blaðadeilu um skipan Íslandsverslunarinnar með sinni fyrstu blaðagrein. Greinin var í þremur hlutum og birtist í dagblaðinu Kjøbenhavnposten undir dulnefninu 8+1. Í henni færði Jón söguleg rök fyrir því að skipan verslunarmála væri óréttlát fyrir Íslendinga og að andúð þeirra á dönskum kaupmönnum væri fyrst og fremst fólgin í baráttu frjálsrar verslunar gegn einokun. Upp frá þessu fór Jón að láta meira að sér kveða á opinberum vettvangi um réttindi Íslands í löngum og ítarlegum blaðagreinum.