Vísindastörf

Jón Sigurðsson. LÍÞ

Myndasafn

Vísindastörf

Vísindastörf

Í Árnasafni

Árið 1835 fékk Jón stöðu styrkþega við Árnasafn í Kaupmannahöfn. Stjórn safnsins taldi hann hæfastan umsækjenda enda hafði hann öðlast haldgóða þekkingu á skjölum og handritum við störf sín hjá Steingrími biskupi Jónssyni í Laugarnesi nokkrum árum áður. Stjórnin taldi einnig að Jón væri afar nákvæmur og hefði að auki mjög fallega og greinilega rithönd sem skipti töluverðu máli við uppskriftir handrita og annað innan safnsins. Jón stóð sig svo vel í þessu starfi að hann fékk aukagreiðslur fyrir elju, áhuga og iðjusemi og fékk hærri stöðu styrkþega innan safnsins árið 1839. Árið 1848 var Jón kjörinn ritari Árnasafns og gegndi þeirri stöðu til æviloka. Innan safnsins tók Jón saman ítarlega skrá yfir handrit þess, vann að útgáfu á Íslenskum annálum fram til 1430 og á Snorra-Eddu, vann að uppskriftum handrita og samanburði þeirra, samdi árlega skýrslu yfir starfsemi safnsins, hafði umsjón með styrkþegum og margt fleira. Páll Eggert Ólason telur að enginn hafi verið safninu annar eins nytjamaður og Jón Sigurðsson enda hafði hann bæði afar góða sýn yfir handrit þess sem og mikinn fræðilegan metnað.

Svíþjóðarferðin 1841

Sumarið 1841 fór Jón Sigurðsson ásamt Ólafi Pálssyni guðfræðinema til Uppsala og Stokkhólms á vegum Árnasafns og Fornfræðafélagsins. Tilgangurinn var að rannsaka og skrá íslensk handrit sem varðveitt voru á söfnum í þessum borgum. Vel var tekið á móti þeim og fengu þeir rúman aðgang að söfnunum og góða vinnuaðstöðu. Ferðin tók rétta þrjá mánuði og var afrakstur hennar heilmikill, þeir fundu mörg gömul íslensk handrit sem ekki var vitað um, skrifuðu upp merk handrit og Jón tók saman ítarlega skrá yfir þau. Sú skrá var grundvöllur að Förteckning öfver Kongl. Bibliothekets i Stockholm Isländska Handskrifter sem kom út árið 1848. Í ferðinni hittu þeir jafnframt tignarfólk og fyrirmenni og sóttu ýmsar veislur og viðburði sem sagt er frá í ferðabók sem Ólafur hélt og er varðveitt í handritasafni Landsbókasafns.

Útgáfa íslenskra fornrita

Haustið 1840 hóf Jón að vinna að útgáfu á Íslendingabók og Landnámabók fyrir Hið konunglega norræna fornfræðafélag. Jón vann ötullega að þessu verki næstu þrjú árin enda er það talið tímamótaverk í íslenskri textafræði og fyrsta vísindalega útgáfa þessara rita. Þar er í fyrsta sinn tilgreindur orðamunur úr nær öllum varðveittum handritum og eldri prentuðum útgáfum Íslendingabókar og Landnámabókar. Jón vann einnig að öðru bindi á vegum félagsins sem kom út árið 1847 og hafði að geyma sex Íslendingasögur. Á næstu árum vann Jón að öðrum fornritaútgáfum af sömu nákvæmni og skarpskyggni og bera þau verk öll vitni um vandvirkni hans og þekkingu á íslenskum handritum. Þessi verk vann hann ýmist fyrir Fornfræðafélagið, Norræna fornritafélagið, Konunglega danska vísindafélagið, Árnasafn eða Hið íslenska bókmenntafélag.

Jón Sigurðsson og Hið íslenska bókmenntafélag

Eitt helsta fræðafélag Íslendinga er Hið íslenska bókmenntafélag. Félagið var stofnað árið 1816 og hefur lengst af gefið út bækur og tímarit sem snúa að sögu og lýsingu lands og þjóðar. Jón gekk í félagið tveimur árum eftir að hann kom til Kaupmannahafnar og er hans fyrst getið í félagaskrá þess vorið 1836. Strax ári síðar var honum falið að skrifa einn árgang af tímariti félagsins, Skírni, ásamt Magnúsi Hákonarsyni og var þá jafnframt kosinn varaforseti félagsins. Árið 1851 var Jón kjörinn forseti félagsins og gegndi þeirri stöðu til dánardags eða í tæp 30 ár. Jón var driffjöðrin í verkefnum félagsins á þessum árum, hann stóð bæði að viðamikilli söfnun þess á íslenskum handritum og réðst í umfangsmikla og fjölbreytta bókaútgáfu. Hinn mikli kraftur sem var í félaginu varð til þess að félagafjöldi þess margfaldaðist, úr 160 árið 1841 í 794 árið 1877.

Bækur og tímarit Hins íslenska bókmenntafélags gefin út í forsetatíð Jóns Sigurðssonar 1851-1879:

  1. Skírnir (1851-1879)
  2. J. G. Fischer, Eðlisfræði (1852)
  3. Hómer, Hómers Odysseifs-kvæði (1854)
  4. Hómer, Ilíons-kvæði (1856)
  5. Safn til sögu Íslands og íslenskra bókmennta að fornu og nýju 1. bindi (1856-1876)
  6. Íslenskt fornbréfasafn 1. bindi (1857–76)
  7. Skýrslur um landshagi á Íslandi 5 bindi (1858–1875)
  8. Biskupasögur 2 bindi (1858–1878)
  9. Halldór Kr. Friðriksson, Íslenzkar réttritunarreglur (1859)
  10. Halldór Kr. Friðriksson, Íslensk málmyndalýsing (1861)
  11. Pétur Guðjohnsen, Íslensk sálmasöngs og messubók með nótum (1861)
  12. Tíðindi um stjórnarmálefni Íslands 3 bindi (1864–1875)
  13. Quintus Horatius Flaccus, Þýðing bréfa Hórasar. 2 bindi (1864–1886)
  14. Páll Melsteð, Fornaldarsagan (1864)
  15. Halldór Kr. Friðriksson, Skýring hinna almennu málfræðilegu hugmynda (1864)
  16. Björn Gunnlaugsson, Tölvísi (1865)
  17. Nokkur blöð úr Hauksbók og brot úr Guðmundarsögu (1865)
  18. Páll Melsteð, Miðaldasagan (1866)
  19. Jón Sigurðsson, Hið íslenska bókmenntafélag. Stofnan félagsins og athafnir 1816–1866 (1867)
  20. Skýrsla um Forngripasafn Íslands (1868)
  21. Björn Gunnlaugsson, Einföld landmæling til að semja afstöðu uppdrætti með einföldum verkfærum (1868)
  22. Páll Melsteð, Nýja sagan 1. bindi (1868–1875)
  23. Sveinn Níelsson, Presta tal og prófasta á Íslandi (1869)
  24. Skýrsla um handritasafn Hins íslenska Bókmenntafélags (1869)
  25. Jón Thoroddsen, Kvæði (1871)
  26. Einar Ásmundsson, Um framfarir Íslands (1871)
  27. Heinrich Wilhelm Stoll, Kennslubók í goðafræði Grikkja og Rómverja (1872)
  28. Fréttir frá Íslandi (1873–1879)
  29. Skýrsla um Forngripasafn Íslands (1874)
  30. Jón Thoroddsen, Maður og kona (1876)
  31. Sigurður Guðmundsson, Alþingisstaður hinn forni við Öxará (1878)
  32. Þorkell Bjarnason, Um siðbótina á Íslandi (1878)
  33. Henry Enfield Roscoe, Efnafræði (1879)
  34. Archibald Geikie, Eðlislýsing jarðarinnar (1879)
  35. Jónas Jónassen, Um eðli og heilbrigði mannlegs líkama (1879)
  36. Íslenskar fornsögur (1879–)

Handritasöfnun Jóns Sigurðssonar

Á æviárum Jóns var ekki óalgengt að fólk ætti gömul handrit í fórum sínum, kvæðahandrit, ættfræðigögn, uppskriftir af Íslendingasögum, ýmiss konar sögulegan fróðleik og margt fleira. Jón taldi nauðsynlegt að forða þessum handritum frá glötun og hóf að safna handritum af miklum krafti. Hann var í bréfasambandi við fjölda fólks víða um land og bað það um að útvega sér ýmis handrit ef þau lægju á lausu. Þannig byggði Jón upp stórt handritasafn sem taldi rúmlega 1.300 handrit þegar allt er tínt til. Talið er að Jón hafi verið mestur íslenskra handritasafnara síðan Árna Magnússon leið. Yfirvöld keyptu handritasafn Jóns árið 1877 og var það falið Landsbókasafni til eignar og varðveislu. Í safninu eru fjölmargir dýrgripir, þar á meðal eiginhandarrit Hallgríms Péturssonar að Passíusálmunum.

Hugðarefni Jóns

Stór hluti þess efnis sem Jón lét eftir sig í handritasafni sínu er í formi minnisgreina um margvísleg hugðarefni hans. Hann notaði oft bláa miða af ýmsum stærðum, jafnvel umslög utan af sendibréfum sem hann fékk, til að halda utan um þann fróðleik sem hann vildi halda til haga af einni eða annarri ástæðu. Þar kennir margra grasa og safnið ber þess vott hversu yfirgripsmikið áhugasvið Jóns var. Lætur nærri að ekkert íslenskt efni hafi verið honum óviðkomandi. Íslenskar bókmenntir af ýmsum toga fylla stóran hluta safns hans og íslensk saga er þar einnig fyrirferðarmikil. Víða í skjalapökkum Jóns Sigurðssonar má finna áhugaverð frumskjöl liggja innan um minnismiða Jóns og annað sem viðkomandi efni tengdist.

Lovsamling for Island

Að frumkvæði Jóns Sigurðssonar var tekið til við að gefa út safn lagaheimilda sem tengdust Íslandi. Þetta heimildasafn kallast Lovsamling for Island og kom út í 21 bindi á árunum 1853–1889. Með þessari útgáfu var í fyrsta sinn heildstætt safnað saman eldri og yngri lögum, tilskipunum og þess háttar efni sem á einn eða annan hátt varpaði ljósi á réttarfar og stjórnarfar á Íslandi tímabilið 1096–1874. Útgáfa þessi bætti úr brýnni þörf sem skapast hafði til þess að hafa á einum stað þessar upplýsingar. Jón sá um að safna saman stærstum hluta þessa safns og eru frumrit Lovsamling for Island geymd í handritasafni Landsbókasafns Íslands. Jón fékk Oddgeir Stephensen skrifstofustjóra í íslensku stjórnardeildinni til liðs við sig sem lögfræðilegan ráðgjafa. Þeir félagar sóttu um styrk til kansellísins til útgáfunnar og fengu. Tilgangur þeirra félaga var að taka saman safn íslenskra lagaheimilda sem embættismenn gætu nýtt sér til að öðlast aukinn skilning og þekkingu á íslensku lagaumhverfi.

Áður en Lovsamling for Island var gefið út höfðu nokkrir menn tekið saman söfn af svipuðu tagi. Hér má sjá forsíðu fyrsta bindis laga- og reglugerðasafns Magnúsar Ketilssonar sýslumanns sem hann gaf út á árunum 1776-1787. Þá hafði Finnur Jónsson biskup tekið saman álíka safn og gefið út í verkinu Historia ecclesiastica Islandiæ sem inniheldur meðal annars ýmsar reglugerðir og lög er varða kirkjuna. Sonur hans, Hannes, safnaði einnig saman laga- og reglugerðarsafni sem í dag er varðveitt í handritasafni Landsbókasafns Íslands.

Íslenskt fornbréfasafn

Af bréfi sem Jón sendi Sveinbirni Egilssyni á afmælisdaginn sinn árið 1837 má ráða að hann hafi snemma fengið þá hugmynd að safna saman íslenskum fornbréfum og skjölum. Á þessum tíma vann Jón fyrir Danska vísindafélagið við að taka saman slíkt safn varðandi danska sögu og ekki er ósennilegt að hugmyndin sé þaðan sprottin. Vitað er með vissu að Jón var byrjaður að viða að sér efni fyrir Íslenskt fornbréfasafn árið 1845. Hann skrifaði upp skjöl og í sumum tilfellum vann hann umfangsmikla rannsókn, t.d. varðandi Gamla sáttmála. Jón leitaði víða fanga við söfnun fornbréfanna, svo sem í safni Árna Magnússonar auk skjalasafna í Kaupmannahöfn og einnig fékk hann aðra til að afrita skjöl, bæði á Íslandi, Englandi og víðar. Jóni entist aðeins aldur til að sjá fyrsta bindi fornbréfasafnsins en það var gefið út í fjórum heftum á árunum 1857-1876. Að Jóni látnum tók Jón Þorkelsson við verkinu þar sem frá var horfið og nýtti hann að einhverju leyti safn Jóns til verksins.

Sagnfræðingurinn Jón

Þegar Jón hóf fræðastörf sín í Kaupmannahöfn um 1835 lágu fjölmargar merkar heimildir um sögu Íslands á skjalasöfnum þar í borg, tilskipanir, skjöl, fornbréf, stjórnvaldsfyrirmæli og margt fleira. Jón fékk snemma góða yfirsýn yfir þessar heimildir og réðst í að koma þeim á prent í vönduðum útgáfum með ítarlegum skýringum og inngangsköflum. Þekktustu útgáfurnar eru Lovsamling for Island og Íslenskt fornbréfasafn sem hafa nýst við grunnrannsóknir á sögu landsins æ síðan. Með vinnu sinni að þessum útgáfum og öðrum fræðastörfum öðlaðist hann umfangsmikla þekkingu á sögu Íslands og beitti henni markvisst í stjórnmálastarfi sínu. Kröfur Jóns um aukið sjálfsforræði Íslands voru þannig ávallt rækilega rökstuddar með sögulegum tilvísunum og sjást skýrt í ritgerðum hans í Nýjum félagsritum. Þessar kröfur mótuðu mjög anda sjálfstæðisbaráttunnar og söguskoðun Íslendinga á síðari hluta nítjándu aldar og fram eftir þeirri tuttugustu.

Landshagir

Jóni var umhugað um að landsmenn gætu ávallt gengið að áreiðanlegum upplýsingum um málefni líðandi stundar og stöðu ýmissa málaflokka í þjóðarbúskapnum. Án þeirra væri vart hægt að ákveða hvaða stefnu ætti að taka í mikilvægum málum. Innan Hins íslenska bókmenntafélags beitti hann sér fyrir því að gefin voru út Tíðindi um stjórnarmálefni Íslands, þar sem voru prentuð ýmis opinber tilmæli og einnig fyrir útgáfu á Skýrslum um landshagi á Íslandi. Þar með hófst regluleg útgáfa á hagskýrslum hér á landi og er óhætt að segja að hún hafi byrjað af krafti. Í skýrslunum var að finna manntöl, búnaðarskýrslur, skýrslur presta um gifta, fædda og dána, einnig verslunarskýrslur, verðlagsskrár, skýrslur um fjárhag landsins, embættismannatöl og svo mætti lengi telja. Sigurður Hansen, Arnljótur Ólafsson og fleiri unnu að skýrslunum sem voru gefnar út með styrk frá landsstjórninni. Skýrslurnar komu út í fimm þykkum bindum á árunum 1858–1875, alls ríflega 4.000 blaðsíður. Árið 1874 tók landsstjórnin við útgáfunni og birti skýrslurnar í Stjórnartíðindum.

Bækur og bókasöfn

Jón Sigurðsson vann stóran hluta starfsævi sinnar innan bóka-, handrita- og skjalasafna, aðallega að útgáfu ýmissa fornrita og heimildasafna og öðru því tengdu. Allt fræðastarf hans og heimildaútgáfa krafðist verulegrar þekkingar á uppbyggingu og forða bóka- og skjalasafna á Íslandi og í Danmörku enda var hann kröfuharður notandi og vissi hvernig ætti að standa að uppbyggingu þeirra og skráningu. Þessar kröfur koma skýrt fram í harðorðum ritdómi sem Jón skrifaði um skrá yfir bókaeign Stiftisbókasafnsins í Reykjavík sem kom út árið 1842. Í ritdóminum fann hann skránni allt til foráttu og skrifaði meðal annars: „Þetta registur, sem eg hefi í höndum ... er sú bók sem eg hefi séð ljótasta og verst af hendi leysta hingaðtil, og eg má fullyrða, að engin bók hefir komið lakari á prent á Íslandi þegar á allt er litið.“ Jón benti á að öll uppbygging og skráning væri illa unnin og jafnvel ætti að eyða öllu upplagi bókarinnar en halda einu eintaki eftir á bókasafninu til sýnis fyrir komandi kynslóðir.