Einkahagir
Hrafnseyri
Jón Sigurðsson fæddist á Hrafnseyri við Arnarfjörð árið 1811 og ólst þar upp til 1829. Faðir Jóns, sr. Sigurður Jónsson, er sagður hafa verið vel að sér og kenndi hann mörgum piltum undir skóla. Nokkur handrit Sigurðar eru varðveitt í handritasafni Landsbókasafns Íslands.
Þórdís Jónsdóttir, móðir Jóns, er sögð hafa verið fróðleikskona. Hermt er að hún hafi kunnað nokkuð í latínu, grísku og hebresku og hafi aðstoðað við að kenna piltum sem Sigurður tók til kennslu á Hrafnseyri. Þórdís átti nokkur gömul handrit, þar á meðal sálmahandrit sem föðurafi hennar, Ásgeir Bjarnason, skrifaði um miðja átjándu öld en það handrit hefur bæði verið í eigu Þórdísar og dóttur hennar, Margrétar Sigurðardóttur. Ásgeir er sagður hafa verið merkismaður, bæði hægur og siðlátur og afar fær skrifari, jafnvel með eina fallegustu rithönd sem varðveist hefur frá átjándu öld. Hann skrifaði upp fjölmörg handrit og safnaði ýmsum fróðleik sem finna má í handritasafni Landsbókasafns. Jón Sigurðsson átti meðal annars nokkur handrit frá langafa sínum.
Föðurafi Jóns og alnafni, Jón Sigurðsson prestur á Hrafnseyri, er talinn hafa verið merkur maður og vel að sér í skólalærdómi enda kenndi hann sjálfur sonum sínum til skóla. Jón bjó á Hrafnseyri á uppvaxtarárum Jóns Sigurðssonar en lést árið 1821. Í handritasafni Landsbókasafns eru varðveitt nokkur handrit eftir hann. Þar eru einnig varðveittar dagbækur Jóns Ásgeirssonar, móðurafa Jóns frá árunum 1774–1780 (Lbs 2671 8vo).
Heimilisfólk og handritaarfur
Á uppvaxtarárum Jóns bjuggu á Hrafnseyri um tuttugu manns: ættmenni, foreldrar, systkini, föðurafi og frænkur ásamt vinnufólki og nokkrum öðrum. Í þessum hópi voru einstaklingar sem þekktir voru fyrir lærdómsþekkingu sína og fróðleiksáhuga og áttu þeir jafnframt í fórum sínum gömul handrit sem gengið höfðu mann fram af manni á milli kynslóða, allt frá upphafi átjándu aldar og jafnvel fyrr. Þetta fræða- og handritaumhverfi hefur eflaust kveikt áhuga Jóns á íslenskum fræðum sem fylgdi honum alla ævi.
Meðal heimilisfólks á Hrafnseyri á uppvaxtarárum Jóns var Markús Eyjólfsson, uppgjafaprestur frá Söndum í Dýrafirði. Markús, sem þá var kominn á sjötugsaldur, var margfróður og jafnframt afbragðs góður skrifari. Eftir hann eru varðveitt þó nokkur handrit, annálar, sálmar, kvæði og fleira, sem öll bera hönd hans fagurt vitni. Að auki birtist á prenti ritgerð eftir hann í Ritum Lærdómslistafélagsins árið 1781 og einnig þýðing á stuttri ritgerð um endurlífgun í Minnisverðum tíðindum árið 1803. Jón átti sjálfur nokkur handrit sem Markús skrifaði með eigin hendi, þar á meðal Grammatica Islandica sem hann skrifaði upp um 1775. Talið er sennilegt að Markús hafi fyrstur vakið áhuga Jóns á íslenskum fræðum.
Nám og vinna í Reykjavík
Vorið 1829 kvaddi Jón Sigurðsson átthaga sína í Arnarfirði og hélt til Reykjavíkur. Faðir hans kom því svo fyrir að Gunnlaugur Oddsson dómkirkjuprestur tók Jón til stúdentsprófs. Hann spurði Jón í nokkra daga út úr stúdentsnámsefni þess tíma og þann 1. júní 1829 var stúdentspróf Jóns í höfn.
Í Reykjavík bjó Jón hjá föðurbróður sínum Einari og fjölskyldu hans við Klúbbgötu (síðar Aðalstræti) og þar kynntist hann tilvonandi konu sinni, Ingibjörgu dóttur Einars. Veturinn eftir stúdentsprófið vann Jón sem innanbúðarmaður í verslun P. C. Knudtzon í Hafnarstræti en Einar frændi Jóns var verslunarstjóri þar. Jón var fenginn til þess að færa inn í verslunarbækurnar allt sem þar átti að vera enda ungi maðurinn mikill listaskrifari.
Í biskupsgarði
Vorið 1830, þegar Jón var tæplega nítján ára gamall, hóf hann störf sem skrifari hjá Steingrími Jónssyni biskupi. Biskupssetrið var þá í Laugarnesi og hafði að geyma veglegasta handrita- og bókasafn landsins. Jón hafði greiðan aðgang að þessu merka safni vegna starfa sinna og naut jafnframt góðs af návist Steingríms biskups sem var einn mesti lærdómsmaður landsins á þessum tíma. Sjálfur hafði Steingrímur miklar mætur á Jóni og sagðist hann frekar vilja hafa Jón einan að störfum fyrir sig en tvo aðra. Í Laugarnesi aðstoðaði Jón einnig fróða menn sem komu þangað til að skoða forn skjöl og bækur, svo sem Sveinbjörn Egilsson sem þá var kennari við Bessastaðaskóla og virtur fræðimaður. Samvistir Jóns við handritasafnið í Laugarnesi og samskipti hans við fræðimenn hafa eflaust styrkt áhuga hans á íslenskum fræðum.
Þegar Jón starfaði hjá Steingrími aðstoðaði hann Sveinbjörn Egilsson við lestur á Reykholtsmáldaga. Hluti máldagans er talinn frá árinu 1185 og er elsta varðveitta frumskjal sem til er á íslensku. Í máldaganum er að finna skrá yfir jarðeignir og gripi í eigu kirkjunnar í Reykholti í Borgarfirði. Hluti máldagans er afar illlæsilegur en Jón gat leyst úr torlesnum orðum og heillaði það Sveinbjörn mjög sem minntist á það í meðmælabréfi sem hann skrifaði til Árnasafns árið 1835.
Meðmæli Sveinbjarnar Egilssonar til Árnasafns vegna starfa Jóns að Laugarnesi (í íslenskri þýðingu):
„Um það er eg sannfærður, að herra cand. phil. Jón Sigurðsson … hefir náð ágætri æfingu í að lesa skinnhandrit; valda því þau atvik að þegar eg fyrir nokkurum arum … skrifaði upp hinn nafnfræga Reykholtskirkjumáldaga, sem finnst á skinni í skjalasafninu í Laugarnesi, þá var herra Jón Sigurðsson … mér hjálplegur í því, og eg verð að játa, að án aðstoðar hans myndi eg ekki hafa verið fær um með öruggri vissu að lesa skinnblað þetta því að nokkur hluti blaðsins, þ.e. 14.-26. lína (að báðum meðtöldum) er, að nokkuru vegna eðlis bleksins, að nokkuru af ítrekuðum tilraunum til að lesa blaðið, orðinn svo daufur, að einungis hvassasta sjón þess manns, sem mikla æfing hefir í handritum, fær greint stafagerðina víða; af því er það, að síðari uppskrift á skinni (sennilega frá 17. öld), sem finna má meðal skjala Reykholtskirkju, hefir alveg fellt út þenna hluta frumritsins. Þessa fimi hafði herra Jón Sigurðsson öðlast með því, að leiðbeiningu biskups, að rita upp ýmis frumskjöl á skinni, þau er varðveitt eru í skjalasafninu.“
Nám í Kaupmannahöfn
Í ágústlok 1833 sigldi Jón Sigurðsson til Kaupmannahafnar með það markmið fyrir augum að þreyta inntökupróf í Kaupmannahafnarháskóla og naut hann aðstoðar Sveinbjarnar Egilssonar á Bessastöðum við undirbúning fyrir prófið. Jón tók prófið í desember 1833 og náði hann góðri fyrstu einkunn. Vorið og haustið eftir þreytti Jón próf í báðum hlutum annars lærdómsstigs og stóðst með ágætum þannig að honum var ekkert að vanbúnaði að hefja reglulegt nám við skólann. Jón valdi að leggja höfuðáherslu á málfræði og sögu, svokallað málfræðipróf hið meira. Fyrst um sinn leigði Jón sér herbergi úti í bæ en komst svo inn á Garð í byrjun febrúar 1834 þar sem hann bjó þar til í janúarlok 1838. Meðfram námi sínu tók Jón að sér ýmis aukaverkefni, m.a. að skrifa upp handrit. Árið 1835 fékk hann styrk frá Árnanefndinni til handritarannsókna og svo fór að hann lauk aldrei prófi þar sem aukaverkefnin voru farin að taka allan hans tíma.
Ingibjörg Einarsdóttir
Þann 9. október 1804 fæddist hjónunum Ingveldi Jafetsdóttur og Einari Jónssyni kaupmanni í Reykjavík stúlka og var hún skírð Ingibjörg í höfuðið á föðurömmu sinni. Ingibjörg Einarsdóttir var frumburður foreldra sinna og átti eftir að eignast þrjá bræður. Þegar Ingibjörg var um ársgömul fluttist fjölskylda hennar að Mýrarhúsum á Seltjarnarnesi og síðar keypti faðir hennar Þerney þar sem þau bjuggu uns þau fluttu alfarið til Reykjavíkur en þar var faðir hennar verslunarstjóri og síðar kaupmaður. Eftir að móðir hennar lést árið 1837 sá Ingibjörg um heimilið fyrir föður sinn allt þar til hann dó 1839. Frá þeim tíma er faðir hennar lést og þar til þau Jón giftu sig árið 1845 bjó Ingibjörg hjá maddömu Sigríði J. Thorgrimsen við Tjörnina. Af þeim fáu heimildum sem greina frá Ingibjörgu má ráða að þar hafi verið á ferð hjálpsöm, dygg, röggsöm og staðföst kona sem gat verið æði þrjósk ef hún beit eitthvað í sig.
Búskapurinn
Þann 13. október 1845 lögðu nýgiftu hjónin Ingibjörg og Jón af stað frá Reykjavík til Kaupmannahafnar þar sem þau áttu eftir að búa sína búskapartíð. Fyrsta heimili þeirra var í lítilli íbúð að Admiralsgade 104 en á framtíðarheimili sitt að Østervoldgade fluttust þau ekki fyrr en árið 1852 eftir að hafa flutt sig nokkrum sinnum um set í borginni. Þau hjón voru samhent og viljug til að aðstoða landa sína með smátt og stórt. Gestkvæmt var á heimili þeirra og oft voru haldin matarboð og veislur. Heimili þeirra var dæmigert heimili borgarastéttarinnar á þessum tíma, meðal annars var á heimili þeirra páfagaukur er þau kölluðu Poppedreng og að sjálfsögðu höfðu þau vinnukonu hjá sér.
Fóstursonurinn og fleiri börn
Haustið 1859 tóku Ingibjörg og Jón í fóstur Sigurð Jónsson frá Steinanesi, son Margrétar systur Jóns og manns hennar Jóns Jónssonar skipstjóra. Svo virðist sem lengi hafi staðið til að Sigurður færi til Jóns og Ingibjargar en í sendibréfi frá Margréti til Jóns kemur fram að hún óskar þess að Sigurður verði hjá Jóni. Þá var Sigurður ríflega hálfs árs gamall en til Ingibjargar og Jóns kom hann rúmlega átta ára gamall og var hann hjá þeim til fullorðinsára.
Ingibjörg og Jón tóku oft að sér að greiða götu Íslendinga sem komu í ýmsum erindagjörðum til Kaupmannahafnar. Meðal annars voru veik ungmenni send til þeirra og þau hjón aðstoðuðu við að leita þeim lækninga og skutu jafnvel skjólshúsi yfir þessi ungmenni um lengri eða skemmri tíma. Þau voru einnig viljug að veita systkinabörnum sínum ýmsa aðstoð, Ingibjörg studdi Einar bróðurson sinn til náms heima á Íslandi og Ingibjörg dóttir Jens bróður Jóns dvaldi hjá þeim hjónum í um ár.
„Háttvirti herra“
Varðveist hafa rúmlega 8000 sendibréf tengd Jóni Sigurðssyni. Annars vegar er um að ræða ríflega 1300 bréf og bréfauppköst sem Jón skrifaði og hins vegar yfir 6600 bréf sem Jón fékk frá vinum, vandamönnum og öðrum sem erindi áttu við hann. Bréf þessi geyma ýmsa vitneskju um persónuna, fræðimanninn og stjórnmálamanninn Jón Sigurðsson. Mikið var um að hann fengi beiðnir um að snúast eitt og annað fyrir Íslendinga. Meðal þess sem hann keypti og sendi heim var: píanó, prentsmiðja, kjólar, hálsmen, hómópatalyf og gleraugu. Þá voru erindi líka af persónulegum toga, hann sótti oft um embætti fyrir menn og stóð í ýmsu stappi fyrir fólk gagnvart stjórninni auk þess að fá einstaka sinnum beiðnir eins og að hafa upp á dönskum barnsföður, dönskum kærasta eða jafnvel barnsmóður og barni. Síðastnefnda erindið leysti Jón með sóma og átti eftir að taka barnsmóður þessa íslenska embættismanns og barn hennar inn á sitt heimili um tíma.
„Hjartkæri vin og bróðir“
Jón var alla tíð í virku bréfasambandi við sína nánustu vini heima á Íslandi. Bréf þeirra á milli skipta hundruðum og eru þau aðallega varðveitt á Landsbókasafni og á Þjóðskjalasafni. Innan þessa hóps má nefna læriföður Jóns, Steingrím Jónsson biskup í Laugarnesi, Sveinbjörn Egilsson, kennara við Bessastaðaskóla og síðar rektor Lærða skólans, Jens Sigurðsson, bróður Jóns og rektor Lærða skólans, Eirík Magnússon, bókavörð við Cambridge háskóla í Englandi, Pál Melsteð sagnfræðing og kennara við Lærða skólann og Jón Guðmundsson ritstjóra Þjóðólfs sem kallaði sig „skugga Jóns Sigurðssonar“. Þessir einstaklingar, ásamt öðrum vinum Jóns, voru framarlega á ýmsum sviðum í íslensku þjóðlífi á síðari hluta nítjándu aldar og í bréfum þeirra má sjá áhugaverða samfélagsmynd frá þessum tíma, bæði frá Íslandi og meðal Íslendinga í Kaupmannahöfn.