Einkahagir

Ingibjörg Einarsdóttir

Þann 9. október 1804 fæddist hjónunum Ingveldi Jafetsdóttur og Einari Jónssyni kaupmanni í Reykjavík stúlka og var hún skírð Ingibjörg í höfuðið á föðurömmu sinni. Ingibjörg Einarsdóttir var frumburður foreldra sinna og átti eftir að eignast þrjá bræður. Þegar Ingibjörg var um ársgömul fluttist fjölskylda hennar að Mýrarhúsum á Seltjarnarnesi og síðar keypti faðir hennar Þerney þar sem þau bjuggu uns þau fluttu alfarið til Reykjavíkur en þar var faðir hennar verslunarstjóri og síðar kaupmaður. Eftir að móðir hennar lést árið 1837 sá Ingibjörg um heimilið fyrir föður sinn allt þar til hann dó 1839. Frá þeim tíma er faðir hennar lést og þar til þau Jón giftu sig árið 1845 bjó Ingibjörg hjá maddömu Sigríði J. Thorgrimsen við Tjörnina. Af þeim fáu heimildum sem greina frá Ingibjörgu má ráða að þar hafi verið á ferð hjálpsöm, dygg, röggsöm og staðföst kona sem gat verið æði þrjósk ef hún beit eitthvað í sig.