Einkahagir

Búskapurinn

Þann 13. október 1845 lögðu nýgiftu hjónin Ingibjörg og Jón af stað frá Reykjavík til Kaupmannahafnar þar sem þau áttu eftir að búa sína búskapartíð. Fyrsta heimili þeirra var í lítilli íbúð að Admiralsgade 104 en á framtíðarheimili sitt að Østervoldgade fluttust þau ekki fyrr en árið 1852 eftir að hafa flutt sig nokkrum sinnum um set í borginni. Þau hjón voru samhent og viljug til að aðstoða landa sína með smátt og stórt. Gestkvæmt var á heimili þeirra og oft voru haldin matarboð og veislur. Heimili þeirra var dæmigert heimili borgarastéttarinnar á þessum tíma, meðal annars var á heimili þeirra páfagaukur er þau kölluðu Poppedreng og að sjálfsögðu höfðu þau vinnukonu hjá sér.