Fréttir

Sýningin LÍFSVERK var opnuð í Þjóðarbókhlöðu 20. apríl s.l.

26.04 2011

Lífsverk er sýning á völdum handritum og skjölum Jóns Sigurðssonar um einkahagi, vísindastörf og stjórnmálaþátttöku í tilefni af 200 ára fæðingarafmæli hans 2011.

Að sýningunni standa Afmælisnefnd Jóns Sigurðssonar og Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn með aðkomu Þjóðskjalasafns Íslands, Þjóðminjasafns Íslands, Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Skjalasafns Alþingis.

Sólveig Pétursdóttir formaður afmælisnefndar Jóns Sigurðssonar flutti ávarp, Ingibjörg Steinunn Sverrisdóttir landsbókavörður opnaði vef sem veitir almennan aðganga að nær 100 þúsund blaðsíðum af efni sem tengist Jóni Sigurðssyni. Sjá hér á vefnum undir LÍFSVERK.

Bragi Þorgrímur Ólafsson og Sigríður Hjördís Jörundsdóttir gerðu grein fyrir vinnu við fyrstu heildarskrá yfir skjöl, bréf og handrit Jóns Sigurðssonar og sýningunni sjálfri.

Mennta- og menningarmálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir, opnaði sýninguna með stuttu ávarpi þar sem hún minnti á að Jón Sigurðsson hefði verið ötull talsmaður menntunar og skóla á Íslandi.

Á sýningunni LÍFSVERK eru bréf, handrit, skjöl og prentað efni sem Jón Sigurðsson átti þátt í, ýmist sem höfundur eða útgefandi, og sýnir ótrúlega fjölbreytt áhugasvið hans.

Sýninguna hannaði Ólafur Engilbertsson hjá Sögumiðlun og einnig efnismikla sýningarskrá.

Sýningin LÍFSVERK er eitt metnaðarfyllsta verkefni Afmælisnefndar Jóns Sigurðssonar og verður opin út afmælisárið á opnunartíma Landsbókasafns Íslands - Háskólabókasafns. Sjá hér á vefnum undir LÍFSVERK.


Sólveig Pétursdóttir, formaður Afmælisnefndar Jóns Sigurðssonar,  
flytur ávarp.


Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, opnar sýninguna.


Einar Gunnar Pétursson, sérfræðingur hjá Stofnun Árna Magnússonar, blaðar í sýningarskrá.


Meðal sýningargripa er skrifpúlt Jóns Sigurðssonar.


Margt forvitnilegt er að sjá á sýningunni.

Ljósmyndir: Jóhannes Long.

Til baka í fréttir Sýningargestir við opnunina