Fréttir

Sýning opnar á Hvanneyri

07.07 2011

Jón Sigurðsson og landbúnaðurinn
Jón Sigurðsson lét sig mjög varða eflingu atvinnuveganna bæði hvað snerti verkhætti og verslun með afurðir þeirra. Landbúnaður hafði verið lifibrauð þorra landsmanna; vinnuaflsfrekur og afkastarýr. Í nálægum löndum gætti vaxandi umbóta. Í ritgerð sinni Um bændaskóla á Íslandi (1849) og ekki síður í Lítilli Varníngsbók (1861) benti Jón á margar leiðir til nýsköpunar í ljósi íslenskra aðstæðna. Í sama skyni greiddi hann götu ungra Íslendinga til búfræðináms erlendis og studdi útgáfu nýstárlegs búfræðsluefnis. Með skrifum sínum og hvatningu til ungra búfræðinga kom Jón Sigurðsson forseti því mjög að þeirri búnaðarbyltingu er hófst á 19. öld. Henni fylgdu framfarir í landbúnaði Íslendinga, svo sem í fóðuröflun,  kvikfjárrækt og afurðavinnslu og -sölu, sem Jón hafði m.a. sýnt fram á í riti sínu, Lítilli varníngsbók, að orðið gætu með breyttum verkháttum.

Í Landbúnaðarsafni Íslands á Hvanneyri hefur í samstarfi við Afmælisnefnd Jóns Sigurðssonar verið sett upp lítil sýning byggð á áðurnefndum ritum forsetans Um bændaskóla á Íslandi og  Lítilli varníngsbók.  Jón beitti fyrst og fremst orðum í baráttu sinni og með vísun til þess eru textar hans meginuppistaða sýningarefnisins.

Sýningin verður kynnt á Íslenskum safnadegi sunnudaginn 10. júlí kl. 15. Þá mun Bjarni Guðmundsson fjalla einnig stuttlega um ritgerð Jóns um bændaskóla og Litla varníngsbók hans. Allir eru velkomnir til kynningarinnar.
 

Til baka í fréttir Frá sýningunni á Landbúnaðarsafni Íslands á Hvanneyri