Fréttir

Opnun sýningarinnar Opinber mynd ...

14.03 2011

Sýningin Opinber mynd ..., sem er samstarfsverkefni Myntsafns Seðlabanka Íslands og Þjóðminjasafns Íslands, Myntsafnarafélags Íslands og Afmælisnefndar Jóns Sigurðssonar, var opnuð í forsal Seðlabankans s.l. fimmtudag, 10. mars.

Sýningin er sett upp í tilefni af 50 ára afmæli Seðlabanka Íslands og 200 ára afmæli Jóns Sigurðssonar forseta og kostuð af Seðlabankanum.

Lára V. Júlíusdóttir, formaður stjórnar Seðlabankans, bauð gesti velkomna og Sólveig Pétursdóttir, formaður Afmælisnefndar Jóns Sigurðssonar, flutti ávarp. Að því loknu þáðu gestir léttar veitingar í boði Seðlabankans.

Á sýningunni eru peningaseðlar, minnispeningar, frímerki og margvíslegir minjagripir sem bera mynd Jóns Sigurðssonar. Kennir þar margra grasa, t.d. eru þar umbúðir utan af súkkulaði, kaffipokar, spil, póstkort, almanök, útsaumur, barmmerki og margt fleira með mynd Jóns, ennfremur auglýsingar þar sem gripið er til Jóns í ýmsum tilgangi.

Munir á sýningunni eru annars vegar úr sameiginlegu myntsafni Seðlabanka og Þjóðminjasafns, en hins vegar úr einkasöfnum.

Að sýningunni unnu Anton Holt, forstöðumaður Myntsafnsins, Lilja Árnadóttir fagstjóri hjá Þjóðminjasafni, Sigfús Schopka frá Myntsafnarafélagi Íslands og Jón Þórisson, sýningarhönnuður.

Tengiliður við Seðlabankann var Ásta H. Bragadóttir, rekstrarstjóri Seðlabankans.

Sýningin er í forsal Seðlabankans, eins og fyrr sagði, en þar er jafnframt sýningarsalur Myntsafnsins.

Sýningin Opinber mynd ... verður opin út afmælisárið og öllum er heimill ókeypis aðgangur kl. 13:30 til 15:30 virka daga.

Til baka í fréttir Frá sýningunni Opinber mynd ...