Fréttir

Leiðtoginn og sjálfstæðisbaráttan á Þjóðminjasafninu

09.06 2011

Í gær, 8. júní, var opnuð aukning eða viðbót við grunnsýningu Þjóðminjasafnsins, „Þjóð verður til“, með yfirskriftinni „Leiðtoginn og sjálfstæðisbaráttan“.

Þar eru til sýnis margir úrvalsmunir úr eigu Jóns Sigurðssonar og Ingibjargar, málverk, ljósmyndir og fleira, og þar að auki stór snertiskjár með margmiðlunarefni sem afmælisnefndin hefur látið búa til og formaður afmælisnefndar afhenti Þjóðminjasafninu.

Samsk konar margmiðlun er nú komin upp í Þjóðminjasafni, Jónshúsi í Kaupmannahöfn og á Hrafnseyri við Arnarfjörð. Þetta er viðamikill tímaás með efni um lífshlaup Jóns Sigurðssonar, vísindastörf hans og stjórnmálaþátttöku með skírskotun til samtímaviðburða á 19. öld á 
Íslandi, í Danmörku og heiminum öllum.

Gagarín hannaði og framleiddi efnið og Guðjón Friðriksson skrifaði texta. Myndefni er frá Þjóðminjasafni, Jóhannesi Long og fleirum.

Afmælisnefndin og Þjóðminjasafnið gerðu snemma með sér samkomulag þess efnis að nefndin fengi ljósmyndir, muni og sérfræðiráðgjöf frá safninu en safnið margmiðlunarefni og -búnað í staðinn. Þar að auki sátu tveir sérfræðingar safnsins, Anna Lísa Rúnarsdóttir og Bryndís 
Sverrisdóttir, í tveimur faghópum á vegum afmælisnefndar.

 

Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður og Sólveig Pétursdóttir formaður afmælisnefndar lýstu ánægju með einstaklega gott samstarf í þessu umfangsmikla verkefni.

 

Afmælisfáninn blaktir nú við hún hjá öllum samstarfsaðilum afmælisnefndar sem eru með sýningar tengdar afmælisárinu.

Til baka í fréttir Frá sýningunni Leiðtoginn og sjálfstæðisbaráttan