Fréttir

Framkvæmdir hafnar við nýja sýningu á Hrafnseyri

27.08 2010

Framkvæmdir eru hafnar við lagfæringar á húsnæðinu á Hrafnseyri til að koma fyrir nýrri og spennandi sýningu sem verður opnuð 17. júní á næsta ári. Gamla sýningin frá 1980 hefur verið tekin niður. Nýja sýningin, sem hefur vinnuheitið „Tímanna rás“ verður öll á jarðhæðinni og þar með aðgengileg fötluðum og öðrum sem eiga erfitt með að príla þrönga stiga, en gamla sýningin var á tveimur hæðum. Gengið verður um nýjan inngang á miðju húsi í rúmgóða móttöku með afgreiðslu og lítilli minjagripasölu. Þaðan er gengið inn á sýninguna til vinstri, þar sem áður var íbúð staðarhaldara, en hún flyst nú upp á efri hæðina. Til hægri við móttökuna er svo minningarkapellan. Hún verður óbreytt en fær viðbótarhlutverk sem eins konar bíósalur með nýju mynd- og hljóðkerfi og þar er einnig kjörið að ávarpa hópa ferðamanna og aðra gesti, halda námskeið, fyrirlestra, tónleika og aðra listviðburði.
Það eru Hornsteinar arkitektar sem hanna breytingarnar á húsnæðinu fyrir Byggingadeild forsætisráðuneytisins en Basalt arkitektar unnu samkeppni um hönnun hinnar nýju sýningar (sjá um samkeppnir). Byggingarstjóri á Hrafnseyri er Sigmundur Þórðarson á Þingeyri.

Til baka í fréttir Gerður verður nýr inngangur í safnið með góðu aðgengi fyrir fatlaða.