Fréttir

Dómnefnd valdi 12 ritgerðir

14.03 2011

Skilafrestur í ritgerðasamkeppninni Kæri Jón ... , sem afmælisnefndin efndi til í samvinnu við mennta- og menningarmálaráðuneytið, rann út s.l. mánudag. Alls bárust 170 ritgerðir eða sendibréf frá 28 skólum.

Þess ber að geta að skólunum var uppálagt að velja bestu ritgerðirnar og senda þær í samkeppnina.

Flestar ritgerðir bárust frá Hagaskóla og Njarðvíkurskóla, 24 frá hvorum. Aðrir skólar sendu færri ritgerðir.

Allar ritgerðirnar voru skannaðar og prentaðar út og fengu dómnefndarmenn þær til yfirlestrar og svo var dómnefnd kvödd saman í Stofu Jóns Sigurðssonar í Þjóðmenningarhúsinu laugardaginn 12. mars.

Dómnefnd var þannig skipuð að mennta- og menningarmálaráðuneytið og Samtök móðurmálskennara tilnefndu Kolbrúnu Sigurðardóttur, Sæmund Helgason og Steinunni Mar, en afmælisnefnd Jóns Sigurðssonar hafði tilnefnt Finnboga Hermannsson og Sólveigu Pétursdóttur, sem var formaður nefndarinnar.

Dómnefndarmenn mættu allir vel lesnir til fundar og vinnan gekk hratt og faglega fyrir sig undir stjórn fyrrv. forseta Alþingis.

Sigrún Ólafsdóttir, trúnaðarmaður keppninnar, og Björn G. Björnsson, verkefnisstjóri afmælisnefndar, voru viðstödd fundinn.

Ritgerðirnar reyndust flestar vera athyglisverðar, skemmtilegar og vel unnar, og þegar upp var staðið hafði dómnefnd valið 12 ritgerðir sem hún taldi verðskulda verðlaun. Samþykkti fundurinn að fjölga verðlaunahöfum um tvo, en skv. áður birtum reglum skyldi verðlauna tíu ritgerðir.

Verðlaunahafar skiptast á milli 7 skóla; 3 eru á landsbyggðinni en 9 í Reykjavík, fimm ritgerðir eru eftir pilta en sjö eftir stúlkur.

Nú verður haft samband við verðlaunahafa og þeim boðið að koma til verðlaunaafhendingar í Þjóðmenningarhúsinu kl. 14 næsta laugardag 19. mars, en þá verða úrslit tilkynnt og mennta- og menningarmálaráðherra afhendir verðlaunin. Börn úr Kór Kársnesskóla syngja, lesið verður úr völdum ritgerðum og sýningin Óskabarn - æskan og Jón Sigurðsson verður skoðuð.

Allir skólar sem tóku þátt fá senda viðurkenningu og allir nemendur sem sendu inn ritgerðir fá skjal með sendibréfi frá Jóni Sigurðssyni.

Þeir tólf nemendur sem unnu til verðlauna fá verðlaunaskjal og vegleg bókaverðlaun.

Fyrirhugað er samstarf við Ríkisútvarpið um flutning á verðlaunaritgerðunum og þær verða birtar á hér á vefnum og á vef mennta- og menningarmálaráðuneytisins að úrslitum loknum.

Nánar verður tilkynnt um úrslitin eftir næstu helgi.

Til baka í fréttir Dómnefnd að störfum